Miklar sveiflur í útflutningsverðmæti

Grein – 12.11.2015 – Fiskifréttir |

Árið 2014 skilaði hvert kíló af þorski að meðaltali 381 kr/kg í útflutningstekjur og er það 6% hækkun frá 2013, þegar tekjurnar á þessum árum eru bornar saman á föstu gengi. Ef útflutningur fyrstu 9 mánuði ársins er skoðaður má gera ráð fyrir því að meðalverð fari yfir 400 kr/kg í ár. Þetta er góð þróun, en ef litið er til síðustu 15 ára hafa verið miklar sveiflur og löng tímabil með fallandi meðalverði. Í greininni skoða ég sveiflur í verði á þorski og ýsu frá árinu 2000.

Sjá greinina hér FF 12 Nov 2015

Samdráttur í afla – verðum að bregðast við

Viðtal – 9.12.2014 – DV |

Útlit er fyrir að hagnaður í íslenskum sjávarútvegi gæti dregist saman á næstu árum ef fyrirtæki bregðast ekki við samdrátti í afla. Kristján Hjaltason benti á þennan samdrátt í máli sínu á Sjávarútvegsráðstefnunni nýverið en hann er einn af stofnendum hennar. Milli áranna 2013 og 2015 er líklega um 300.000 tonna samdrátt í heildarframboði sjávarafurða frá Íslandi að ræða en Kristján segir mikilvægt að íslensk fyrirtæki geri ráðstafanir. Heildarframboð sjávarfangs frá Íslandi mun fara úr 1.440.000 tonnum árið 2013 í 1.180.000 tonn í ár. Þá spáir Kristján enn frekar samdrætti árið 2015 eða 1.140.000 tonnum. Mestu munar um samdrátt í uppsjávarveiðum en gríðarlegur uppgangur hefur verið í þeim geira undanfarin ár. Helst vegna mikillar makrílgengdar. Heildarútflutningstekjur námu 278 milljörðum árið 2012 en 282 milljörðum árið 2013. Kristján spáir því að útflutningsverðmæti verði um 260 milljarðar í ár og árið 2015.

Sjá viðtalið í DV hér DV des 2014 KH

 

Hagstæð þróun í útflutningsverðmæti sjávarafurða. 65 mrð.kr. aukning verðmæta á 3 árum

Umfjöllun – 28.11.2013 – Fiskifréttir |

Heildarafli Íslendinga dregst saman í ár og á næsta ári samkvæmt spám. Heildarverðmæti sjávarafura hefur aukist mikið undanfarin þrjú ár, eða um 65 milljarða á föstu verði. Tæpur helmingur þessarar aukningar væri vegna loðnu og síldar. Afurðaverð á hráefniskíló þorsks var 388 krónur 2003. Hækkun til 2012 hefur eingöngu verið 3,5% sem er innan við hálft prósent á ári. Það getur ekki talist viðunandi árangur fyrir okkar mikilvægustu fisktegund. Þetta og margt fleira kom fram í erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni 2013.

Hér má sjá greinina  í Fiskifréttum FF 28.11.13

Hefur verðmæti afla aukist? Framboð, framleiðsla og sala íslenskra sjávarafurða 2012 og heimsframboð

Ræða – 21.11.2013 – Sjávarútvegsráðstefnan |

Markmið sjávarútvegsins hljóta að vera að hámarka tekjur af því sjávarfangi sem er veitt, kemur úr eldi eða er flutt inn, nánar til tekið auka tekjur á hvert hráefniskíló. Ég ætla að fara yfir þessa þætti, skoða hvernig aðföng hafa þróast og spá til um hversu mikið framboð verður á næsta ári. Ég mun setja fram greiningu á þróun afurðaverðs s.l. áratuginn fyrir helstu tegundir og sjá hjá hvaða tegundum hefur tekist að ná umtalsverðri hækkun.

Sjá ræðuna hér Ræða 2013  og myndir   Myndir 2013

Innflutningur hráefnis til vinnslu hérlendis skilaði 2,5 mrð.kr. framlegð 2012

Grein – 14.11.2013 – Fiskifréttir |

Reikna má með að innflutt hráefni og landanir erlendra skipa til fiskvinnslu í landinu hafi skilað um 9,6 mrð.kr. í útflutningstekjur 2012. Innflutningsverðmæti námu 7,1 mrð.kr og er verðmætisaukning því 2,5 mrð.kr. Þetta hráefni er viðbót við þann afla sem kemur frá íslenskum skipum og úr eldi, þannig eykst nýting framleiðslutækja því framboð hráefnis er stöðugra. Þetta hráefni fer í bræðslu, frystingu, reykingu, söltun og til annarrar vinnslu. Margar greinar hafa af því tekjur, vöruúrvalið getur orðið breiðara og sölustarf styrkist í kjölfarið. Þess vegna er verðugt að velta því fyrir sér af hverju innflutningur er ekki meiri en raun ber vitni og af hverju hefur hann minnkað mikið frá fyrri hluta síðasta áratugs.

Innflutningur á hráefni sveiflast mikið á milli ára. Á síðustu 17 árum var magnið mest 1998 og árin 2003-2005 og var innflutningur þau ár í kringum 200.000 tonn og var mest af uppsjávarfiski, sem landað var hér. Hér verða mikilvægustu tegundir í innflutningi skoðaðar og mat lagt á aukningu verðmæta frá innfluttu hráefni til útfluttra afurða. Ég byggi á mínum útreikningum á verðmætum útflutnings sjávarafurða á hráefniskíló.

Sjá hér greinina í heild  Grein nóvember 2013  og Fiskifréttir, þar sem greinin birtist  FF 14.11.13

 

Hefur verðmæti útflutnings aukist? Íslenskur sjávarútvegur, heimsafli og þróun útflutningsverð á hráefniskíló.

Ræða – 8.11.2012 – Sjávarútvegsráðstefnan |

Það er mér mikil ánægja að ávarpa þriðju Sjávarútvegsráðstefnuna til þess að gefa yfirlit yfir íslenskan sjávarútveg í ár og spá fyrir um næsta árið. Ræðan skiptist í yfirlit yfir framboð á hráefni til sjávarútvegsins, vinnslu og ráðstöfun afla svo og sölu, markaði og afurðir. Auk þess mun ég skoða heimsframboð sjávarfiska og hlutdeild okkar í samanburði við Noreg og Evrópusambandið.

Þó svo að sjávarútvegurinn eigi gott ár að baki og 2012 verði einnig gott, þá er framboð sjávarfangs miklu minna en flest af síðustu 20 árum. Afkastageta greinarinnar, hvort sem er í veiðum eða vinnslu er miklu meiri og því er markmið mitt að sýna hvernig staðan verði að óbreyttu og velta fyrir mér hvar við getum sótt í aukið hráefni og aukið verðmæti.

Sjá ræðuna hér Ræða 2012   og myndir hér Myndir 2012

Eru sóknarfæri í fullvinnslu

Viðtal – 4.4.2012 – Fiskifréttir |

Í upphafi viðtals í Fiskifréttum segir: ,,Á árum áður var algengt að framleiðendum íslenskra sjávarafurða væri borið á brýn að þeir seldu fiskinn hálfunninn úr landi í stórum umbúðum til endurvinnslu erlendis og gagnrýnt að þeir reistu fiskréttaverksmiðjur í útlöndum í stað Íslands. Þessar raddir eru að mestu hljóðnaðar en þær spurningar eru eigi að síður áhugaverðar að hve miklu leyti íslenski fiskurinn fari héðan tilbúinn í hendur neytandans og hvort einhver sóknarfæri séu í fullvinnslu og kynningu íslenskra sjávarafurða. Til þess að fá svör við þessu sneru Fiskifréttir sér til Kristjáns Hjaltasonar, ráðgjafa og formanns Sjávarútvegsráðstefnunnar, en hann hefur áratuga reynslu af sölustarfi fyrir íslenska fiskframleiðendur.”

Sjá viðtalið í heild hér Fiskifréttir 4. apríl 2012

Sóknarfæri í sjávarútvegi. 50 milljarða aukning á 5 árum?

Vital – 9.9.2010 – Fiskifréttir |

Útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða nam 214 milljörðum króna á síðasta ári. Það væri augljóslega til mikils að vinna ef unnt yrði að auka þessi verðmæti um fjórðung á skömmum tíma. Á Sjávarútvegsráðstefnunni 2010, sem haldin var í Reykjavík í síðustu viku og bar yfirskriftina Hafsjór tækifæra, flutti Kristján Hjaltason ráðgjafi erindi, þar sem hann kvaðst sannfærður um að auka mætti útflutningstekjur sjávarútvegsins um 50 milljarða króna á fimm árum með ákveðnum aðgerðum sem hann tiltók.

Hér má sjá viðtalið í heild. Fiskifréttir sept 2010