Kórónafaraldur | Grein
Við upplifum nú aðstæður á mörkuðum sem við höfum ekki séð lengi. Hversu lengi munu afurðaverð geta hækkað á meðan kostnaður á öllum stigum hækkar líka? Verð á sjávarafurðum er í hæstu hæðum, framboð á mikilvægum tegundum er gott og kostnaður á flestum framleiðsluþáttum hefur hækkað verulega, sem leiða mun til mikilla verðhækkana í verslunum og á veitingahúsum. Hversu lengi getur þetta gengið, hvernig munu fyrirtæki og neytendur bregðast við?
Þriðja ár kórónu-veirunnar er hafið og enginn getur sagt til um hvað bíður okkar á þessu ári. Sjávarútveginn hefur farið í gegnum miklar sveiflur í framboði og eftirspurn eins og flestar aðrar iðngreinar í heiminum. Staðan í dag er önnur en margir reiknuðu með fyrir ári og það er fróðlegt að skoða í hvaða stöðu greinin er í dag.
Flutningskostnaður, sérstaklega gámaflutningar, hefur hækkað mjög mikið og margfaldast á sumum leiðum, sérstaklega frá Kína til N-Ameríku og Evrópu. Í Bretlandi og innan Evrópu hefur flutningskostnaður einnig hækkað mikið vegna skorts á bílstjórum og trukkum, og með mikilli hækkun á olíuverði. Auk þess hefur skort hráefni í marga þætti framleiðslunnar sem leitt hefur til hærri kostnaðar m.a. á umbúðum og orku.
Veiðar hafa gengið misvel, eftir því á hvaða tegundir og svæði er verið að horfa á. Í Barentshafi var fyrri hluti 2021 mjög góður en haustið var slæmt. Veiðar hafa verið sveiflukenndar í kringum Ísland. Í Kyrrahafi voru veiðar á Alaska ufsa undir væntingum, bæði austan og vestan megin. Framboð í heild á botnfiskum í ár verður undir síðasta ári vegna samdráttar í Alaska ufsa, aðrar tegundir ættu að vera með svipað framboð.
Kostnaður útgerða vegna kórónu-faraldursins hefur verið hár, það hefur þurft að grípa til ýmissa aðgerða til að sporna við útbreiðslu veirunnar og tryggja öryggi áhafna. Oft hafa skip þurft að halda til hafna og hætta veiðum tímabundið sem hefur í för með sér að framleiðsla á landi stöðvast. Áhrifin eru hærri kostnaður fyrir útgerðina.
Vegna truflana í aðfangakeðjunni, sérstaklega í Kína, hefur óvissa með framboð aukist verulega, miklar breytingar hafa verið í vöruflæði, kaupendur hafa þurft að leita nýrra leiða til að tryggja sér vörur og birgðahald hefur aukist. Einnig hefur kostnaður iðnfyrirtækja hækkað vegna aðgerða til að mæta áhrifum faraldursins. Sumir tala um að ekki sé lengur hægt að byggja á „just in time“ aðferðinni, framleiðendur og dreifendur þurfa að auka birgðahald og jafnvel hefja framleiðslu nær markaðnum, og það kostar sitt.
Jákvætt hefur verið að eftirspurn á mörkuðum í Evrópu og N-Ameríku hefur verið mjög góð allt síðasta árið, þrátt fyrir gott framboð af mikilvægum tegundum m.a. vegna truflana í afhendingum frá hefðbundnum birgjum í Kína.
Allar þessar breytingar hafa leitt til þess að fiskverð almennt er mjög hátt, hærra en við höfum séð í alla vega þrjá áratugi, og ekki eru líkur á breytingum í bráð á mikilvægustu afurðum botnfiska.
Orkukostnaður heimila hefur hækkað mikið, neytendur þurfa að borga hærra verð fyrir flest, tímabil vaxtahækkana er hafið og verðbólga er hærri en verið hefur lengi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þar sem laun flestra munu ekki geta bætt upp verðhækkanir munu neytendur þurfa að velja í hvað þeir eyða. Það hjálpar að flestir ferðast mun minna vegna faraldursins, og því er meira afgangs í ýmsar nauðsynjar. Slíkt ástand getur þó ekki varað lengi, eitthvað mun gefa eftir, spurningin er hvað það verður?