Metár í botnfiskveiðum

Greining | 5.11.2019 | Facts of Seafood |

Eins og síðustu árin leggur Facts of Seafood fram yfirlit yfir veiðar íslenskra skipa 2018 með áætlun fyrir 2019 og spá fyrir 2020, en spáin byggir á úthlutuðum kvóta og áætlunum útgerðarmanna á afla uppsjávartegunda. Jafnframt eru lagðar fram tölur um innflutning og fiskeldi, einnig með spá sérfróðra manna. Til viðbótar erum tölur um heimsveiði mikilvægustu botn- og uppsjávarfiska sem og yfirlit yfir fiskeldi í heiminum í þeim tegundum, sem keppa við íslenskan sjávarútveg. Þessar upplýsingar er að finna hér: https://factsofseafood.com/?attachment_id=531.

Botnfiskveiðar á Íslandi voru 480.000 tonn árið 2018 og eru horfur á að árið í ár verði svipað. Miðað við úthlutaðan kvóta, og veiðar íslenskra skipa í Barentshafi er líklegt að afli á komandi ári verði um 500.000 tonn.

Veiðar uppsjávartegunda var í fyrra 738.000 tonn, sem er í meðallagi síðustu 10 ára, en vegna engra loðnuveiða í ár og samdrátt í makríl og kolmunna eru horfur á að uppsjávarafli verði eingöngu 513.000 tonn í ár. Að mati útgerðarmanna sem leitað var til getur uppsjávarafli orðið 653.000 tonn á komandi ári, en vonast er til að einhver loðnuveiði verði leyfð.

Rækjuveiðar eru áfram litlar, en horfur eru betri með opnun veiða á Flæmska hattinum og líklegt er að innflutningur á frystu hráefni aukist í ár og á næsta ári með auknu framboði af iðnaðarrækju vegna vaxandi veiða í Barentshafi. Veiðar sæbjúgu voru 6.000 tonn í fyrra, sem var metár, og í ár spá útgerðarmenn afla upp á 5.400 tonn. Það hafa hins vegar verið settar skorður á veiðar og því er reiknað með að afli á næsta ári verði innan við 3.000 tonn.

Fiskeldi er í miklum vexti, sérstaklega laxeldi, sem getur skilað 20.000 tonnum í ár og 25.000 tonnum á næsta ári. Eldi Íslandsbleikju eykst áfram og gæti orðið 5.500 tonn á næsta ári, sem er tvöföldun á 10 ára tímabili.